Bókaupplestur í Bíó Paradís
Þriðjudagskvöldin 10. og 17. desember stendur Bíó Paradís fyrir bókaupplestri í anddyri bíósins. Þá munu nokkrir frábærir rithöfundar stíga fram og kynna verk sín. Það verður sannkölluð jólastemmning í Bíó Paradís þessi kvöld. Boðið verður upp á smákökur og konfekt auk þess sem heitt kaffi og kakó og ískaldur jólabjór verða á boðstólnum í veitingasölunni.
Þeir höfundar sem munu lesa upp úr verkum sínum í Bíó Paradís eru eftirfarandi:
10. desember
– Árni Þórarinsson – Glæpurinn: Ástarsaga
Árni Þórarinsson rær hér á ný mið á höfundarferli sínum í meitlaðri og áleitinni sögu um örlagaríkan sólarhring í lífi fjölskyldu. – Öll þrjú höfðu beðið eftir þessum degi, kviðið honum og óttast hann. HÚN vill af veikum mætti standa við gefið loforð. HANN efast um að sannleikurinn geri þau frjáls. FRÍÐA vill afhjúpa leyndarmálið sem splundraði lífi þeirra.
– Björn Þór Sigbjörnsson – Frá hruni og heim (Steingrímur J. Sigfússon les upp úr bókinni)
Dramatísk átök, þungbærar deilur við samherja og andstæðinga og hitamál eftirhrunsáranna. Hér hlífir Steingrímur J. hvorki sjálfum sér né öðrum. Hvað gerðist á bak við tjöldin?
– Björg Magnúsdóttir – Ekki þessi týpa
Hæfilega klikkuð saga um ungar konur með tonn af skoðunum. Að sjálfsögðu eru þær líka í tómu veseni. Annars væri ekkert að frétta. En þær eru klárlega að fara eitthvað … þó að þær viti ekki alveg hvert. „Hressileg og drepfyndin skvísusaga.“ – FB/Fréttablaðið.
– Ragnar Jónasson – Andköf
Ung kona finnst látin undir klettabelti. Móðir hennar og systir hröpuðu fram af sömu klettum aldarfjórðungi áður. Andköf um jólin!
– Sigrún Pálsdóttir – Sigrún og Friðgeir
Haustið 1940 lögðu tveir ungir íslenskir læknar, hjónin Friðgeir Ólason og Sigrún Briem, af stað áleiðis til Bandaríkjanna í sérnám. Eftir fjögurra ára vist þar og í Kanada snúa þau aftur til Íslands; hann með doktorspróf frá Harvard, hún rétt búin að ljúka kandídatsári sínu með vinnu á barnaspítölum. Sigrún og Friðgeir eru sannarlega tákn um bjartar vonir íslenskra læknavísinda þegar þau stíga um borð í Goðafoss haustið 1944 en þau eru líka foreldrar, sannfærð um hvert sé mikilvægasta hlutverk þeirra.
17. desember
– Eva Rún Snorradóttir – Heimsendir fylgir þér alla ævi
Hér kveður sér hljóðs nýtt Reykjavíkurskáld. Kviss, búmm, bang!
– Guðni Ágústsson – Guðni: Léttur í lund
Guðni Ágústsson fer á kostum í sögum af sjálfum sér og öðrum – og þjóðþekktir menn rifja upp litríkar sögur af Guðna. Skemmtilegasta bók ársins!
– Halldór Armand Ásgeirsson – Vince Vaughn í skýjunum
Sara og Þórir – menntaskólastelpa sem vinnur í sundlaug og háttprúður Lottókynnir í sjónvarpinu – eru með öllu óviðbúin frægðinni þegar hún steypist yfir þau. Hann verður alræmdur á Íslandi, hún alþjóðleg stjarna. Hvernig bregðast þau við?
– Raymond Carver – Það sem við tölum um þegar við tölum um ást (Óskar Árni Óskarsson, þýðandi, les upp úr bókinni)
Eitt besta smásagnasafn í heimi, loksins komið út á íslensku.
– Valur Gunnarsson – Síðasti elskhuginn
Er rómantíkin ennþá til? Alls staðar leitar fólk síðasta elskhugans sem gerir alla aðra óþarfa. Valur Gunnarsson hefur elt ástina heimsálfanna á milli. Stóra ástin í lífi hans er þó Leonard Cohen, og gott ef Cohen kemur ekki líka fyrir í þessari skáldsögu.
– Vigdís Grímsdóttir – Dísusaga
Hér segir frá lítilli stúlku sem verður fyrir ofbeldi og lokast inni í dýflissu þöggunar í fimmtíu ár, þar til kúgari hennar veitir henni loks tveggja mánaða frelsi til skrifta, og ólgandi tilfinningar streyma fram í Kaffihúsinu í Norðurfirði. Óvænt og heillandi bók þar sem Vigdís Grímsdóttir víkur fyrir Dísu Gríms.
– Yrsa Sigurðardóttir – Lygi
Gamlar syndir, nýjar lygar, óhugnanlegar tilviljanir. Yrsa bregst ekki lesendum sínum í nýrri og spennandi glæpasögu.