Warning: Declaration of description_walker::start_el(&$output, $item, $depth, $args) should be compatible with Walker_Nav_Menu::start_el(&$output, $item, $depth = 0, $args = Array, $id = 0) in /home/forge/old.bioparadis.is/public/wp-content/themes/newscast/framework/classes/description_walker.php on line 43
Nosferatu

Nosferatu

Oct 25, 2010 1 skoðun

Bíó Paradís mun standa fyrir mánaðarlegum kvöldum þar sem sýndar verða helstu myndir þögla skeiðsins í kvikmyndum – en það náði fram yfir 1930. Oddný Sen kvikmyndafræðingur hefur umsjón með þessum kvöldum.

  • Tegund og ár: Leikin mynd (þögul m. tónlist), 1922
  • Lengd: 94 mín.
  • Land: Þýskaland
  • Leikstjóri: Friedrich Wilhelm Murnau
  • Aðalhlutverk: Max Schreck, Gustav von Wangenheim, Greta Schröder, Alexander Granach, Ruth Landshoff

EFNI: Nosferatu er byggð á skáldsögu Bram Stokers Dracula og því fyrsta kvikmyndin um þann fræga kappa og um leið einskonar fyrirrennari hrollvekjunnar. Leikstjórinn F.W. Murnau breytti reyndar nöfnum og ýmsu öðru, auk þess lét hann hjá líða að spyrja leyfis og erfingjar Stokers tóku það óstinnt upp. Þeir unnu höfundarréttarmál gegn honum og dómarinn fyrirskipaði að öllum eintökum myndarinnar skyldi eytt. Það mun hafa verið Henri Langlois hjá Franska kvikmyndasafninu sem forðaði kvikmyndasögulegu slysi með því að passa uppá eina af mörgum útgáfum myndarinnar, en síðar hafa aðrar fundist. Myndin þykir enn einhver sú besta af sinni sort, hvort sem horft er til þýska expressionismans eða hrollvekjumynda yfirleitt.

Nosferatu Murnaus kom fyrst fram með aðra af tveim algengustu útleggingum kvikmyndavampírunnar. „Nosferatu-týpan“ er lifandi lík og minnir á nagdýr í útliti, með langar neglur og útstæðar framtennur og er hvorki seiðandi né þokkafull heldur frekar ógeðsleg. Fórnarlömb hennar deyja venjulega en breytast ekki sjálf í vampírur. „Drakúla-týpan“, sem er mun algengari, er töfrandi stertimenni og bit hans breytir þeim sem fyrir verða í vampírur.

UMSÖGN: Nosferatu er ein af fyrstu – og um leið helstu – myndum hins svokallaða þýska expressionisma í kvikmyndum, tímabils sem stóð í um áratug eða svo (ca. 1920-1931), en hafði gríðarleg áhrif á kvikmyndir síðari tíma. Má þar nefna film noir stefnuna í Bandaríkjunum og víðar – sem enn bergmálar í margskonar myndum; hrollvekjur og hryllingsmyndir allar götur síðan; og ennfremur vísindaskáldsögur og framtíðarmyndir.

Þýski expressionisminn var einnig andsvar við íburðarmiklum kvikmyndum Hollywood þessara tíma. Evrópumenn gátu ekki keppt við Bandaríkjamenn í dýrum sviðsetningum með fjölda leikara og statista; þeir voru í sárum eftir fyrri heimsstyrjöldina. Í staðinn lögðu þeir áherslu á táknrænar sviðsetningar með óræðu andrúmslofti og hinar dekkri hliðar mannskepnunnar. Viðfangsefni expressionísku myndanna voru oftast einhverskonar brjálæði, sturlun eða svik – meðan Hollywood snerist um hasar, rómantík, undur og stórmerki.

Inntak hinnar expressionísku stefnu er birting innra hugarástands utan frá með sviðsmynd, látbragði og stíl – og til þess notuð sérkennileg lýsing og furðuleg sjónarhorn. Oddný Sen kvikmyndafræðingur hefur bent á að gott dæmi um það sé einmitt útlit Nosferatus sjálfs í mögnuðum leik Max Schreck (skrekkur, ótti). Oddný nefnir ennfremur hvernig Murnau notar filmuna negatífa til að skapa draumkennt ástand þar sem svart verður hvítt og hvítt verður svart – og að minni eins og ógn vampírunnar, kistur, rottufaraldur og plágan voru í raun hugsuð sem tákn um hvernig komið var fyrir hinu sigraða Þýskalandi á þessum tíma.

  • DAGSKRÁ: Þöglar myndir
  • SÝND: 28. október 2010
Kvikmyndir

Ein skoðun to “Nosferatu”

  1. Nosferatu (1922) í Bíó paradís fimmtudag kl. 20:20 : Vinkill.is says:

    […] verður kvikmyndin NOSFERATU eftir F.W. Murnau frá […]

Svara færslunni

You must be logged in to post a comment.