Warning: Declaration of description_walker::start_el(&$output, $item, $depth, $args) should be compatible with Walker_Nav_Menu::start_el(&$output, $item, $depth = 0, $args = Array, $id = 0) in /home/forge/old.bioparadis.is/public/wp-content/themes/newscast/framework/classes/description_walker.php on line 43
MAX OPHULS MÁNUÐUR: Madame de… (Eyrnalokkar eiginkonunnar)

MAX OPHULS MÁNUÐUR: Madame de… (Eyrnalokkar eiginkonunnar)

Mar 30, 2011 Engin skoðun
  • Tegund og ár: Leikin mynd, 1953
  • Lengd: 105 mín.
  • Land: Frakkland
  • Texti: Enskur
  • Leikstjóri: Max Ophüls
  • Aðalhlutverk: Charles Boyer, Danielle Darrieux og Vittorio De Sica
  • Dagskrá: Max Ophüls mánuður
  • Sýnd: 1.-3. apríl 2011

EFNI: Þetta er saga um sýndardýrð og harmræn örlög. Hástéttarkona í París við upphaf tuttugustu aldar, sem við kynnumst aðeins sem Madame de (Darrieux), sér sig tilneydda að selja eyrnalokka án vitundar eiginmannsins (Boyer). Með þessu setur hún af stað keðjuverkun sem hefur alvarlegar afleiðingar og verður til að setja líf hennar í rúst.

UMSÖGN: Af mörgum talin kórónan í sköpunarverki Ophüls. Bandaríski gagnrýnandinn Andrew Sarris segir hana “helsta meistaraverk allra tíma” og landa hans og kollega Molly Haskell finnst erfitt að skilja hversvegna allir séu ekki einfaldlega sammála um það.

Max Ophüls

Því hefur verið haldið fram að allir sannir kvikmyndaunnendur dái Max Ophüls (1902-1957) og að þeim beri saman um að stærsta ástæðan sé sú að myndir hans hverfist um kjarna kvikmyndalistarinnar – að segja sögu í myndum.

Ophüls var þýskur gyðingur og hóf feril sinn þar. Hann flúði til Frakklands 1933 og fór síðan til Bandaríkjanna 1940. Þar var hann í áratug áður en hann sneri aftur til Frakklands og gerði flestar sínar helstu myndir á síðustu sjö árum ævinnar. Flestar mynda hans birta svipaðar áherslur; leikhús og sjónarspil, tónlist, fortíð, minningar og togstreituna milli félagslegrar stöðu og innri langana. Myndir hans hafa sterkan og afgerandi stíl, fágað yfirbragð og gleðja augað hvert sem litið er, auk þess sem myndavélin er á stöðugri hreyfingu, hreinlega dansar með viðfangsefnum sínum.

Miklir kvikmyndastílistar eru stundum sakaðir um að búa til skreytilist á kostnað merkingar og innihalds. Slíkt á ekki við um Ophüls, stíll hans snýst eingöngu um merkingu. Framan af var litið á hann sem léttvægan leikstjóra sem gerði áferðarfallegar en veigalitlar “konumyndir”. Konur eru vissulega miðpunktur flestra verka Ophüls og ástin er það sem drífur þær áfram. En verk hans fjalla um hvernig samfélagið lítur á konur, hvernig þær höndla með ímynd sína eða eru neyddar inn í stöðluð form sem þrúgar þær og heftir. Myndir hans eru aðeins léttvægar ef ástin er léttvægt viðfangsefni. Sársauki og vonbrigði eru gjaldið sem persónur hans greiða fyrir sælustundirnar. Myndir hans kunna að vera dísætar á yfirborðinu en undir er hið beiska bragð brostinna vona.

Á okkar tölvubrelluöld er handbragð Ophüls jafnvel enn áhrifameira í því hvernig hann beitir tökuvél sinni í þágu einingar tíma og rúms. Návist tökuvélarinnar fer ekki framhjá okkur, heldur leiðir okkur áfram, upp og niður, inn og út. Tilfinningunni sem þetta skapar er ekki hægt að lýsa, aðeins upplifunin sjálf dugar til.

Evrópa, Frakkland, Kvikmyndir
Engin skoðun á “MAX OPHULS MÁNUÐUR: Madame de… (Eyrnalokkar eiginkonunnar)”

Svara færslunni

You must be logged in to post a comment.