Kínverskir kvikmyndadagar!
Kínverskur kvikmyndaiðnaður hefur vaxið gríðarlega hratt á undanförnum árum og spannar nú allt frá ódýrum sjálfstæðum myndum til stórra verk-efna sem oft eru unnin í samvinnu við erlenda aðila. Kínverskir kvikmyndadagar í Bíó Paradís taka púlsinn á stöðunni í kvikmyndagerð þessa merka lands og færa þér átta nýjar myndir, þar á meðal frá meisturunum Zhang Yimou og Chen Kaige. Þarna má finna drama og kómík, samtímasögur og sögulegar stórmyndir; allt forvitnileg verk sem áhugavert er að njóta.
Myndirnar eru allar með enskum texta og verður hver mynd sýnd tvisvar (opnunarmyndin þrisvar).
Kínverskir kvikmyndadagar eru haldnir í samvinnu við Fjölmiðlaskrifstofu Kínverska sendiráðsins á Íslandi (Press Office of the Chinese Embassy in Iceland).
__________________________________________________________________________________
Myndirnar eru:
OPNUNARMYND:
SACRIFICE
Zhao shi gu er / Chen Kaige, 2010 / 127 mín.
Hið persónudrifna hefndardrama Kaige, með stórstjörnunni Ge You, sló í gegn í Kína. Myndin gerist í fjarlægri fortíð. Hershöfðinginn Tuan slátrar hinni voldugu Zhao fjölskyldu en einn meðlimur hennar sleppur, nýfætt sveinbarn sem læknirinn Cheng Ying (Ge You) tekur að sér. Cheng þyrstir í hefnd og í fyllingu tímans kemur hann drengnum fyrir í þjónustu Tuans með það fyrir augum að koma hershöfðingjanum illa fyrir kattarnef. En góð ráð eru dýr þegar ætterni piltsins uppgötvast…
__________________________________________________________________________________
FOREVER ENTHRALLED
Mei Lanfang / Chen Kaige, 2008 / 145 mín.
Kaige, sem ekki hafði sent frá sér mynd síðan Farewell My Concubine 1993, sneri aftur með þessari sannsögulegu mynd um óperustjörnuna Mei Lanfang sem náði mikilli frægð fyrir túlkun sína á kvenpersónum – þrátt fyrir að vera karlkyns. Myndin fylgir Lanfang frá byrjun ferilsins um tíu ára aldurinn gegnum stormasama ævi hans.
__________________________________________________________________________________
UNDER THE HAWTHORNE TREE
Shanzha shu zhi lian / Zhang Yimou, 2010 / 115 mín.
Hin áferðarfallega og næmlega gerða ástarsaga Yimou (Hero, House of Flying Daggers) gerist í menningarbyltingunni. Stúlkan Jing er send útá land í “endurhæfingarbúðir” en faðir hennar hefur verið fangelsaður fyrir tilraun til gagnbyltingar. Jing gerir sér grein fyrir því að framtíð fjölskyldunnar veltur á vilja hennar til að láta umsnúa sér. Þegar hún verður ástfangin af Sun, syni háttsetts foringja á staðnum, verða þau að leyna sambandi sínu.
__________________________________________________________________________________
THE MESSAGE
Feng shen / Kuo-fu Chen, Gao Qunshu, 2009 / 118 mín.
Ógnar spennandi njósnaþriller af gamla skólanum. Árið er 1942 og Japanir haf hernumið Kína. Njósnari á vegum kommúnista hefur náð að koma sér fyrir í samskiptamiðstöð leppstjórnarinnar í Nanjiing. Stjórnin sendir frá sér falskar upplýsingar til að leiða njósnarann í gildru og í framhaldinu eru fimm menn handteknir og pyntaðir. En tekst Japönum að finna hinn rétta njósnara?
__________________________________________________________________________________
THE PIANO IN A FACTORY
Gang de qin / Zhang Meng, 2010 / 105 mín.
Cheng er fyrrum verkamaður í stálverksmiðju en reynir nú að draga fram lífið með spileríi í hljómsveit sinni. Þegar konan hans skilur við hann tilkynnir dóttir þeirra að hún vilji búa hjá því foreldrinu sem geti skaffað henni píanó. Chen safnar saman gömlum vinnufélögum og saman freista þeir þess að smíða píanó í gamalli stálverksmiðju. Fullt af undirfurðulegum húmor, súrrealískum dansatriðum og rússneskum tregasöngvum!
__________________________________________________________________________________
DEEP IN THE CLOUDS
Liu Jie, Cai Ni, 2010 / 93 mín.
Sagan gerist í stórbrotnu landslagi suðvestur Kína og segir af Lisu-ættbálkn-um. Þessi gullfallega saga lýsir hinu sérstæða sambandi milli þorpsbúanna og bjarnanna sem búa í nágrenninu, en þorpsbúarnir trúa því að þeir séu afkomendur bjarndýranna. Inní þetta flettast ástarsaga tveggja ungmenna sem fá ekki að eigast; pilturinn er barnabarn þorpsöldungsins en stúlkan hefur verið lofuð öðrum.
(Stikla ófáanleg)
__________________________________________________________________________________
IF YOU ARE THE ONE 2
Fei cheng wu rao 2 / Xiaogang Feng, 2010 / 130 mín.
Ein vinsælasta myndin í Kína á síðasta ári. Rómantískar kómedíur koma sjaldnast inná skilnaði og jarðarfarir ólíkt þessari. Auðkýfingur um fimmtugt (Ge You aftur, sjá einnig Sacrifice) á í mestu brösum með kærustu sína, sem er ung flugfreyja (leikinn af annarri stjörnu, Shu Qi).
__________________________________________________________________________________
BODYGUARDS AND ASSASSINS
Shi yue wei cheng / Teddy Chen, 2009 / 135 mín.
Myndin, sem hlaut alls átta verðlaun á Hong Kong Film Awards í fyrra, segir sögu Sun Wen sem barðist gegn hinni spilltu Qing-keisaraætt. Hann kemur til Hong Kong 1905 til að ráðgast við félaga um byltingaraðgerðir, en er sýnt banatilræði við komuna þangað. Upphefst síðan hinn æsilegasti leikur þar sem þekktar asískar slagsmálastjörnur fara á kostum í bardagasenum og hverskyns vopnfimi.