Warning: Declaration of description_walker::start_el(&$output, $item, $depth, $args) should be compatible with Walker_Nav_Menu::start_el(&$output, $item, $depth = 0, $args = Array, $id = 0) in /home/forge/old.bioparadis.is/public/wp-content/themes/newscast/framework/classes/description_walker.php on line 43
Kvikmyndahátíðin Skemmd epli

Kvikmyndahátíðin Skemmd epli

May 21, 2012 Engin skoðun

Þema kvikmyndahátíðarinnar „Skemmd epli“ sem fram fer í Bíó Paradís dagana 24.-29. maí, er fólk í barátttu við bresti sína á einn eða annan hátt. Sýndar verða fjórar nýjar og nýlegar kvikmyndir sem vakið hafa mikla athygli á undanförnum misserum. Þrjár koma frá Norðurlöndunum en opnunarmyndin og sú allra nýjasta, kemur frá Bretlandi. Hátíðin er haldin í samvinnu við SÁÁ.
______________________________________________________________________________

OPNUNARMYND:

TYRANNOSAUR

Bretland, 2011. Leikstjóri: Paddy Considine. Aðalhlutverk: Peter Mullan, Olivia Colman.

Þessi magnaða og afar áhrifamikla mynd segir af ekklinum Jósef sem er atvinnulaus og þjakaður af ofbeldishneigð og reiði sem er að leggja líf hans í rúst. Hann þráir ekkert heitar en að breyta lífi sínu en sér ekki hvernig. Jósef kynnist Hönnu sem starfar í búð sem rekin er á vegum hjálparsamtaka í hverfinu. Með þeim takast góð kynni og Jósef byrjar að eygja von um að geta breytt lífi sínu til betri vegar. Hanna virðist heilbrigð og kærleiksrík kona sem iðkar trú sína og vill öllum vel en hún býr yfir þrúgandi leyndarmáli sem gæti orðið til að draga Jósef aftur til fyrri hátta.

Tyrannosaur er fyrsta mynd hins kunna breska leikara Paddy Considine (Last Resort, 24hr Party People, In America) og hefur hlotið hátt á þriðja tug verðlauna víða um heim, þar á meðal á Sundance hátíðinni, BAFTA verðlaununum, og British Independent Film Awards. Með aðalhlutverkin fara Peter Mullan og Olivia Colman, sem bæði hafa verið marglofuð og verðlaunuð fyrir frammistöðu sína í myndinni.


______________________________________________________________________________

FRUMSÝNING Á ÍSLANDI:

APPLAUSE

Danmörk, 2009. Leikstjóri: Martin Pieter Zandvlieta. Aðalhlutverk: Paprika Steen, Michael Falch.

Ósköpin öll hafa gengið á í lífi hinnar virtu leikkonu Thea Barfoed, meðal annars skilnaður og forræðismissir yfir börnunum. Thea þráir að segja skilið við fortíðina, ná tökum í lífi sínu og fá drengina sína til sín aftur. Hún notar persónutöfra sína og útsmogna kænsku til að sannfæra fyrrverandi mann sinn um að hún sé tilbúin að takast á við móðurhlutverkið, en því miður hefur hún ekki náð að sannfæra sjálfa sig. Djöflarnir innra herja fast á Theu sem glímir bæði við krefjandi starf og fortíðardrauga. Bæði hún og fjölskylda hennar vita sem er að hún er prímadonna sem kann betur að standa á sviðinu og láta ljós sitt skína en glíma við hversdagslega tilveru.

Hin frábæra leikkona Paprikka Steen fer með aðalhlutverkið í þessari ágengu og margverðlaunuðu mynd. Í myndinni eru meðal annars notaðir bútar úr uppsetningu á leikritinu Who‘s Afraid of Virginia Woolf sem Steen lék aðalhlutverkið í fyrir fáeinum árum við geysigóðar undirtektir.


______________________________________________________________________________

SVINALÅNGORNA (SVÍNASTÍAN)

Svíþjóð, 2010. Leikstjóri: Pernilla August. Aðalhlutverk: Noomi Rapace, Ola Rapace.

Morgun einn rétt fyrir jól fær Leena (34) símtal frá sjúkrahúsi í bænum sem hún ólst upp í. Henni er sagt að móðir hennar sé að deyja. Fréttirnar verða til þess að unga konan fer til að hitta móður sína í fyrsta sinn frá því hún var fullorðin. Leena hefur barist til að losna við sorgina vegna glataðrar, myrkrar æsku sinnar.  Hún neyðist nú til að takast á við fortíðina til að halda lífinu áfram.

Svínastían er fyrsta myndin sem sænska verðlaunaleikkonan Pernilla August leikstýrir. Myndin er byggð á metsölubókinni „Svinalängorna“ eftir Susanna Alakoski.  Myndin var heimsfrumsýnd á gagnrýnendaviku í Feneyjum 2010 þar sem hún hlaut Audience-Critics Week verðlaunin og UNESCO-Hope verðlaunin. Myndin hefur síðan hlotið mörg önnur eftirsótt verðlaun eins og NDR Best Feature Film í Lübeck and þrenn Guldbagge verðlaun fyrir bestu leikstjórn, bestu leikkonu í aukahlutverki (Outi Mäenpää frá Finnlandi) og bestu klippingu (Åsa Mossberg). Um 650.000 manns sáu myndina í Skandínavíu (nær 400.000 í Svíþjóð) og var hún ein metsölumynda Nordisk Film í Skandínavíu eftir Millenium-þríleikinn. Myndin hlaut jafnframt Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs 2011 og var sýnd í Bíó Paradís það haust við gríðarlegar vinsældir.


______________________________________________________________________________

SUBMARINO

Danmörk, 2010. Leikstjóri: Tomas Vinterberg. Aðalhlutverk: Jakob Cedergren, Peter Plaugborg.

Submarino er saga tveggja aðskildra drengja, sem bera merki dapurlegrar æsku. Þeir voru aðskildir á unga aldri þegar sorglegur atburður sundraði fjölskyldunni. Þegar myndin gerist er líf Nick gegnsýrt  af áfengisneyslu og ofbeldi, en bróðir hans er einstæður faðir sem reynist erfitt að veita syni sínum betra líf af því að hann er fíkill. Leiðir þeirra skarast og það kemur til óumflýjanlegs uppgjörs.

Í Submarino snýr Thomas Vinterberg aftur til þeirrar einföldu kvikmyndagerðar sem einkenndi fyrstu verk hans eins og  Veisluna (Festen) sem hann varð frægur fyrir. Leikstjórinn var heillaður af því sterka raunsæi sem kemur fram í skáldsögu Jonas T. Bengtsson um sektarkennd foreldra og sökkti sér í reynsluheim aðalpersónanna tveggja, Nick (Jakob Cedergren) sem er félagslega einangraður, og bróður hans (Peter Plaugborg), sem er fíkniefnaneytandi og faðir lítils drengs sem heitir Martin. Til að kynnast miskunnarlausu umhverfi persónanna eins vel og mögulegt var, sökkti leikstjórinn sér niður í heim verkafólks í norðvesturhluta Kaupmannahafnar og til þess að afla sér þekkingar á lífi fíkilsins, föður Martins, leitaði hann til gamals skólafélaga  sem hefur verið heróínfíkill í 20 ár.

Submarino hlaut Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs 2010 og auk þess fjölda verðlauna á kvikmyndaverðlaunum Dönsku kvikmyndaakademíunnar (Robert Awards) sem og verðlaun danskra gagnrýnenda (Bodil Awards). Hún var sýnd í Bíó Paradís haustið 2010 við afar fínar undirtektir.

Bretland, Danmörk, Kvikmyndir, Svíþjóð
Engin skoðun á “Kvikmyndahátíðin Skemmd epli”

Svara færslunni

You must be logged in to post a comment.