Warning: Declaration of description_walker::start_el(&$output, $item, $depth, $args) should be compatible with Walker_Nav_Menu::start_el(&$output, $item, $depth = 0, $args = Array, $id = 0) in /home/forge/old.bioparadis.is/public/wp-content/themes/newscast/framework/classes/description_walker.php on line 43
Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs 2012

Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs 2012

Aug 29, 2012 Engin skoðun

Fimm áhrifaríkar en jafnframt afar ólíkar norrænar kvikmyndir keppa um hin eftirsóttu kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs á þessi ári. Myndirnar eru:

  • En kongelig affære (Danmörk – nú í almennum sýningum í Bíó Paradís)
  • Á annan veg (Ísland)
  • Company Orheim (Noregur)
  • Play (Svíþjóð)
  • The Punk Syndrome (Finnland)

Myndirnar verða sýndar í Bíó Paradís dagana 14.-20. september og verða allar með enskum texta. Verðlaunin, að andvirði um 7 milljóna íslenskra króna, eru veitt kvikmynd sem á rætur í norrænni menningu og býr yfir miklum listrænum gæðum. Kvikmyndin á einnig að sýna listræna nýsköpun og jafnframt þróa kvikmyndalistina með því að sameina hinar ýmsu hliðar hennar í sannfærandi og heilsteyptu verki.

Dómnefnd sem skipuð er einum fulltrúa frá hverju Norðurlandanna tilkynnir í október hver hlýtur Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs 2012. Þau verða afhent á Norðurlandaráðsþingi í byrjun nóvember, en þá verða einnig afhent Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs, Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs og Náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs. Markmiðið með verðlaununum er meðal annars að styrkja norræna menningu og byggja upp heimamarkað fyrir menningu, bókmenntir, tungumál, tónlist og kvikmyndir.

NÁNAR UM MYNDIRNAR:

Á ANNAN VEG (Ísland)

  • LEIKSTJÓRI Hafsteinn Gunnar Sigurðsson | HANDRITSHÖFUNDUR Hafsteinn Gunnar Sigurðsson | FRAMLEIÐENDUR Davíð Óskar Ólafsson, Árni Filippusson | AÐALHLUTVERK Sveinn Ólafur Gunnarsson, Hilmar Guðjónsson, Þorsteinn Bachmann | Lengd 85 mínútur

Either Way (Iceland) Poster 193 x 275SÖGUÞRÁÐUR: Á miðjum níunda áratugnum dvelja Finnur og Alfreð, tveir starfsmenn Vegagerðarinnar, sumarlangt á afskekktu svæði á norðurhluta landsins og mála línur á malbikaða vegi sem teygja sig inn í sjóndeildarhringinn. Þar sem þeir hafa einungis félagsskap hvors annars verða óbyggðirnar staður ævintýra, stormasamra atburða og uppgötvunar þar sem báðir menn standa á krossgötum í lífi sínu.

UM MYNDINA: Þar sem leikstjórinn, Hafsteinn Gunnar Sigurðsson, hafði takmörkuð fjárráð til að mynda frumraun sína ákvað hann að gera myndina á aðeins 16 dögum. Aðalleikarar eru einungis tveir en hrikalegt landslag Vestfjarða gegnir hins vegar þriðja aðalhlutverkinu. Hafsteinn Gunnar sem er bæði leikstjóri og handritshöfundur réði Svein Ólaf Gunnarsson og Hilmar Guðjónsson sem var þá nýútskrifaður úr leiklistarskólanum til að leika hlutverk Finns og Alfreðs. Hilmar fékk mikið lof fyrir framistöðu sína í Á annan veg og var valinn í hóp tíu „Shooting Stars“ á kvikmyndahátíðinni í Berlín 2012. Síðan myndin var frumsýnd á Zabaltegi-New Directors section í San Sebastian síðastliðinn september, hefur hún verið eftirlæti gagnrýnenda og kvikmyndahátíða og tekið þátt í rúmlega 20 slíkum, og fengið fjölmörg verðlaun s.s. fyrir bestu mynd í Tórínó og Baltic Film Prize á norrænum kvikmyndadögum í Lübeck í Þýskalandi.Á annan veg hlaut einnig þrenn Edduverðlaun, þar á meðal fyrir bestu kvikmyndatöku (Árni Filippusson), búningahönnun (Margrét Einarsdóttir) og besta leikara í aukahlutverki (Þorsteinn Bachmann).

Kvikmyndin hefur verið endurgerð af bandaríska leikstjóranum David Gordon Green undir heitinu Prince Avalanche með Emile Hirsch (Into the Wild) og Paul Rudd (Our Idiot Brother) í aðalhlutverkum.

PLAY (Svíþjóð)

  • Leikstjóri Ruben Östlund | Handritshöfundur Ruben Östlund | Framleiðandi Erik Hemmendorff | Aðalhlutverk Anas Abdirahman, Sebastian Blyckert, Yannick Diakité, Sebastian Hegmar, Abdiaziz Hilowle, Nana Manu, John Ortiz, Kevin Vaz | Lengd 118 mínútur.

Play (Sweden) 194 x 275SÖGUÞRÁÐUR: Play er listilega útfærð athugun á raunverulegum dæmum um einelti. Á árunum 2006 og 2008 lagði hópur drengja á aldrinum 12-14 ára önnur börn í einelti í um 40 tilvikum í miðborg Gautaborgar í Svíþjóð. Drengirnir notuðu sniðuglega útfært bragð sem nefndist „litla bróður bragðið“ eða „bróður bragðið“ sem byggðist á hlutverkaleik og gengjamáli frekar en líkamlegu ofbeldi.

UM KVIKMYNDINA: Erik Hemmendorff framleiðandi fékk hugmyndina að Play eftir að hafa lesið blaðagrein um röð smáþjófnaða sem framdir voru af ungum drengjum á aldrinum 12 til 14 ára í Gautaborg á tímabilinu 2006 til 2008. Unglingarnir sem höfðu lagt önnur börn á sama aldri í einelti og rænt þau höfðu notað flókna aðferð sem nefndist „bróður bragðið“ sem fólst í flóknum hlutverkaleik og gengjamáli frekar en líkamlegu ofbeldi. Með það fyrir augum að rannsaka félagsleg hlutverk og hóphegðun, eins og í fyrri mynd sinni Involuntary, hóf Östlund að skrifa handritið, rannsaka tilfellið og taka viðtöl við fórnarlömb, gerendur og lögreglu. Hann réð átta áhugamenn, unga drengi, og kvikmyndaði þá í röð langra atriða til þess að efla þá upplifun að um raunverulegan tíma væri að ræða. Play var heimsfrumsýnd á Cannes Directors Fortnight 2011 þar sem hún hlaut „Coup de coeur“ verðlaunin. Myndin fékk fleiri verðlaun svo sem fyrir bestu mynd á „2 in 1“ kvikmyndahátíðinni í Moskvu, verðlaun fyrir bestu leikstjórn í Tókýó, fyrir bestu leikstjórn og kvikmyndatöku á Guldbagge verðlaunahátíðinni í Svíþjóð 2011 og Greta verðlaunin frá samtökum sænskra kvikmyndagagnrýnenda fyrir bestu sænsku myndina árið 2011.

EN KONGELIG AFFÆRE (Kóngaglenna – Danmörk)

  • Leikstjóri Nikolaj Arcel | Handritshöfundar Nikolaj Arcel, Rasmus Heisterberg | Framleiðendur Louise Vesth, Sisse Graum Jørgensen, Meta Louise Foldager | Aðalhlutverk Mads Mikkelsen, Alicia Vikander, Mikkel Boe Følsgaard, Trine Dyrholm, David Dencik | Lengd 131 mínútur

A Royal Affair (Denmark) Poster 194 x 275SÖGUÞRÁÐUR: Myndin sem gerist snemma á áttunda áratug átjándu aldar fjallar um ástarþríhyrning milli hins sífellt geðveikari Kristjáns sjöunda Danakonungs, hans þýska líflæknis Johann Friedrich Struensee – manns upplýsingar og hugsjóna, og hinnar ungu enskfæddu Danadrottningar Karólínu Matthildar. Myndin er grípandi saga hugrakkra hugsjónamanna sem leggja allt ísölurnar í baráttu sinni fyrir frelsi þjóðarinnar. Þetta er saga um ástríðufulla forboðna ást sem breytti heilli þjóð.

UM KVIKMYNDINA: Kóngaglenna er fyrsta sögulega kvikmynd Zentropa og eitt metnaðarfyllsta verkefni fyrirtækisins til þessa. Nikolaj Arcel leikstjóri, mikill aðdáandi sögulegra Hollywood kvikmynda frá fimmta og sjötta áratug síðustu aldar, hafði þá hugmynd að koma á hvíta tjaldið í Danmörku og um allan heim, sinni eigin útgáfu af Gone With the Wind eftir að hafa gert aðra kvikmynd sína í fullri lengd, Island of Lost Souls (2007). Honum datt í hug sagan A Royal Affair, frásögn um einn örlagaríkasta atburð í sögu Danmerkur og Evrópu. Arcel vann ásamt Rasmus Heisterberg samstarfsaðila sínum í átta mánuði að því að þróa eigin sýn á söguna, en hélt sig engu að síður við sögulegar staðreyndir.

Ásamt sköpunarteymi sínu fékk leikstjórinn þá hugmynd „að færa skandínavískt sögulegt drama inn í nýja öld“ með því að gera söguna eins nútímalega og mögulegt er, leggja áherslu á lykilpersónur, einstök atvik og með því að „sýna söguna“ í gegnum þeirra augu. Mads Mikkelsen var fyrsti valkostur Arcel í hlutverk hins föngulega og töfrandi læknis Johann Struensee. Að loknum leikprófum um alla Skandínavíu var sænska leikkonan Alicia Vikander valin til að leika hina ungu og gáfuðu drottningu Carolina Mathilda. Nýliðinn Mikkel Boe Følsgaard sem leikur Kristján konung sjöunda var valinn þegar hann stundaði nám við danska leiklistarskólann. Megnið af myndinni var tekin upp í Tékklandi með aðstoð 130 reyndra starfsmanna. Punkturinn yfir i-ið fyrir þessa stórbrotnu evrópsku mynd var samstarfið við tónskáldið og óskarsverðlaunahafann Gabriel Yared og samstarfsmann hans Cyrill Aufort.

Myndin var heimsfrumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Berlín 2012 þar sem hún hlaut tvo silfurbirni fyrir besta handrit og besta leikara. Myndin var frumsýnd í Danmörku þann 29. mars og dreift af Nordisk Film Distribution. Í lok júní var hún orðin næst aðsóknarmesta mynd ársins í Danmörku með 25% markaðshlutdeild og rúmlega 513.000 selda aðgöngumiða. Myndin hlaut einnig eina stærstu opnun allra tíma í Bretlandi, einu af 75 löndum sem keypt hafa sýningarrétt.

 

THE PUNK SYNDROME (Kovasikajuttu – Finnland)

  • Leikstjórar Jukka Kärkkäinen, J-P Passi | Höfundar Jukka Kärkkäinen, J-P Passi, Sami Jahnukainen | Framleiðandi Sami Jahnukainen | Lengd 85 mínútur

The Punk Syndrome (Finland) 194 x 275SÖGUÞRÁÐUR: The Punk Syndrome fjallar um finnsku pönkhljómsveitina „Pertti Kurikan Nimipäivät“. Hljómsveitarmeðlimirnir 4, Pertti, Kari, Toni og Sami, sem allir eru þroskaheftir, leika tónlist með stolti og stæl. Leikstjórarnir Jukka Kärkkäinen og J-P Passi fylgja þeim á ferð þeirra úr æfingaaðstöðunni inn í kastljósið og á tónleikasvið á tónlistarhátíðum, þar á meðal fyrstu hljómleikaferð þeirra til Þýskalands. Kvikmyndin sýnir samskipti hljómsveitarmeðlima, rifrildin, grátinn og hláturinn. Við sjáum þá slást, verða ástfangna og fylgjumst með löngum dögum í hljóðveri. Þetta er kvikmynd um inntak pönksins, saga um öðruvísi fólk sem rís upp gegn ríkjandi stefnu.

UM MYNDINA: Leikstjórinn Jukka Kärkkäinen uppgötvaði hljómsveitina Pertti Kurikan Nimipäivät þegar hann horfði á fréttaskot árið 2009 og varð samstundis hugfanginn af því hversu orkufullir og svalir hljómsveitarmeðlimir voru. Honum datt samstundis í hug að gera um þá heimildakvikmynd og ræddi hugmyndina við framleiðanda sinn Sami Jahnukainen og hinn þrautreynda kvikyndatökumann J-P Passi. Kärkkainen hafði samband við Kalle umboðsmann sveitarinnar og komst í samband við tónlistarmennina. „Það var ást við fyrstu sýn“ viðurkennir leikstjórinn sem fékk samþykki hljómsveitarinnar. Kärkkainen og Passi ferðuðust með hljómsveitinni í rútu þeirra og kvikmynduðu hana í eitt og hálft ár, á tónleikaferðalagi og við æfingar og skráðu einnig ævisögur hvers einstaklings í sveitinni. „Á hverjum degi urðu óvænt og sprenghlægileg atvik“ segir Jahnukainen. Alþjóðleg frumsýning The Punk Syndrome var í apríl 2012 á Vision du Réel kvikmyndahátíðinni í Nyon í Sviss, þar sem myndin hlaut verðlaun Swiss Post fyrir nýstárlegustu kvikmyndina í fullri lengd. Hún hlaut einnig áhorfendaverðlaun kvikyndahátíðarinnar í Tampere. Kvikmyndin var frumsýnd í Finnlandi í maí 2012.

 

COMPANY ORHEIM (Noregur)

  • Leikstjóri Arild Andresen | Handritshöfundar Arild Andresen, Lars Gudmestad (byggt á bókinni „Company Orheim“ eftir Tore Renberg) | Framleiðendur Yngve Saether, Sigve Endresen | Aðalhlutverk Vebjørn Enger, Kristoffer Joner, Cecilie Mosli | Lengd 104 mínútur

The Orheim Company (Norway) 198 x 275SÖGUÞRÁÐUR: Company Orheim er bæði fjölskyldusaga og uppvaxtarsaga um sekt, friðþægingu og kostnað sjálfstæðis. Myndin sem gerist á miðjum níunda áratug síðustu aldar fjallar um Jarle Klepp (15) og foreldra hans sem reyna að búa undir sama þaki í Stavangri í Noregi. Allir í fjölskyldunni eiga sér drauma og vonir en þeim reynist erfitt að takast á við daglegt líf, sérstaklega föðurnum sem er alkóhólisti. Ungi drengurinn finnur útleið í gegnum tónlist, stjórnmálastarf og með því að eltast við stelpur. En honum reynist erfitt að standa á eigin fótum heima fyrir og mörgum árum seinna verður Jarle að takast á við drauga fortíðarinnar og íhuga hvað æska hans snérist um.

UM MYNDINA: Company Orheim byggir á þriðju bókinni í þríleik Tore Renberg um annað sjálf hans Jarle Klepp. Fyrstu tvær skáldsögurnar The Man Who Loves Yngve og I Travel Alone fjalla um líf Jarle í menntaskóla og háskóla, en Company Orheim er sjálfstæðari saga sem fjallar um drenginn þegar hann er 15 ára og býr enn heima hjá foreldrum sínum þar sem hann reynir að finna andrými í klefa Orheim fjölskyldunnar. Arild Andersen las metsölubókina þegar hún kom út í Noregi árið 2005 og vildi samstundis kvikmynda hana. Hann fékk handritshöfundinn Lars Gudmestad í lið með sér en hann skrifaði handritið að fyrstu mynd hans The Liverpool Goalie. Leikarinn Rolf Kristian Larsen sem hafði leikið Jarle Klepp í myndum Stian Kristensen The Man Who Loved Yngve and I Travel Alone var aftur fenginn til að leika Jarle 24 ára. Hlutverk sem Jarle 15 ára hlaut nýr leikari Vebjørn Enger, en stjörnuleikarinn Kristoffer Joner leikur Terje Orheim hinn flókna föður Jarle.

Myndin var heimsfrumsýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Gautaborg 2012 þar sem hún hlaut hin eftirsóttu Dragon verðlaun fyrir bestu norrænu kvikmyndina. Myndin var frumsýnd í Noregi þann 2. mars 2012 og er vinsælasta mynd í Noregi árið 2012 (þann 30. júní). Þegar þetta er ritað hafði Company Orheim verið tilnefnd til fimm Amanda verðlauna í Noregi, fyrir bestu norsku mynd, leikstjórn, handrit (Arild Andresen og Lars Gudmestad), leikara í aðalhlutverki (Kristoffer Joner) og leikkonu í aukahlutverki (Cecilie A. Mosli).

Danmörk, Evrópa, Finnland, Ísland, Kvikmyndir, Noregur, Svíþjóð
Engin skoðun á “Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs 2012”

Svara færslunni

You must be logged in to post a comment.