Góð aðsókn á Evrópsku kvikmyndahátíðina
Alls sóttu um 1300 manns fyrstu Evrópsku kvikmyndahátíðina í Reykjavík (REFF 2012) sem haldin var í Bíó Paradís 16.-25 nóvember. Sýndar voru 14 kvikmyndir, flestar þeirra nýjar myndir sem farið hafa sigurför um kvikmyndahátíðir heimsins á undanförnum mánuðum. Einnig voru haldnar sýningar á þremur myndum gríska meistarans Theo Angelopoulos sem lést fyrr á árinu. Vinsælustu myndir hátíðarinnar voru Tabu (Tabú) frá Portúgal, Les seigneurs (Gaurarnir) frá Frakklandi og The Deep Blue Sea (Hafið djúpa bláa) frá Bretlandi. Þá var einnig mjög fín aðsókn á myndir Angelopoulos sem og á sérstaka sýningu á bresku kvikmyndinni Tyrannosaur (Skemmd epli) sem haldin var til styrktar UN Women á Íslandi.
REFF 2012 var haldin í samvinnu Bíó Paradísar, Evrópustofu og sendinefndar ESB á Íslandi með aðkomu UN Women á Íslandi. Stefnt er að því að gera hátíðina að árlegum viðburði.