Warning: Declaration of description_walker::start_el(&$output, $item, $depth, $args) should be compatible with Walker_Nav_Menu::start_el(&$output, $item, $depth = 0, $args = Array, $id = 0) in /home/forge/old.bioparadis.is/public/wp-content/themes/newscast/framework/classes/description_walker.php on line 43
Hinsegin dagar í Bíó Paradís

Hinsegin dagar í Bíó Paradís

Jul 16, 2014 Engin skoðun

Hinsegin dagar í Reykjavík verða haldnir í sextánda sinn dagana 5.-10. ágúst næstkomandi. Að vanda verður boðið upp á fjölbreytt úrval atburða þar sem litríkur hópur listamanna leggur sitt af mörkum í þágu mannréttinda, menningar og margbreytileika.

Hluti af dagskrá Hinsegin daga í Reykjavík í ár eru kvikmyndasýningar í Bíó Paradís. Sýndar verða tvær frábærar heimildamyndir, annars vegar Intersexion sem sýnd verður þriðjudaginn 5. ágúst kl. 21:00 og hins vegar Stonewall Uprising, sem sýnd verður sunnudaginn 10. ágúst kl. 18:00. Ókeypis aðgangur er á báðar sýningarnar og allir velkomnir.

 

Intersexion

  • Tegund og ár: Heimildamynd, 2012
  • Lengd: 68 mín.
  • Land: Nýja-Sjáland
  • Leikstjóri: Grant Lahood
  • Dagskrá: Hinsegin dagar í Reykjavík
  • Sýnd: Þriðjudaginn 5. ágúst kl. 21:00

Þegar nýsjálenski leikstjórinn Grant Lahood ákvað að gera heimildarmynd um líf intersex fólks vissi hann fátt um intersex og gerði ráð fyrir að það væri mjög sjaldgæft ástand. Það var áður en hann hitti Mani Bruce Mitchell, fyrstu „opinberu“ intersex intersexion_444manneskjuna á Nýja-Sjálandi, sem einnig er þulur myndarinnar. Lahood komst að því að undir intersex-regnhlífina fellur margs konar líkamsgerð og að ástandið er í raun fremur algengt. Til dæmis fæðast um það bil 1 af hverjum 2000 börnum með „óræð“ ytri kynfæri og því er svarið við spurningunni sem langflestir spyrja þegar barn fæðist – „er það strákur eða stelpa?“ – alls ekki einfalt.

Í heimildarmyndinni Intersexion birtast viðtöl við fjölmarga intersex einstaklinga úr ólíkum heimshornum og áhorfendum er veitt innsýn í heim fólks sem passar ekki snyrtilega inn í kynjaflokkunarkerfið og hina hefðbundnu skiptingu í karl- og kvenkyn. Myndin er persónuleg, hjartnæm, hreinskilin og fyndin athugun á viðfangsefni sem enn þann dag í dag er mikið tabú.

Ókeypis aðgangur.

 

Stonewall Uprising

  • Tegund og ár: Heimildamynd, 2010
  • Lengd: 80 mín.
  • Land: Bandaríkin
  • Leikstjóri: Kate Davis, David Heilbroner
  • Dagskrá: Hinsegin dagar í Reykjavík
  • Sýnd: Sunnudaginn 10. ágúst kl. 18:00

Heimildarmyndin Stonewall Uprising fjallar um einstaka viðburði sem höfðu djúpstæð áhrif á mannréttindabaráttu hinsegin fólks á heimsvísu.

stonewall_gallery_10

Þann 28. júní 1969 gerði lögreglan í New York tilraun til að loka hommabarnum Stonewall í Greenwich-þorpinu í New York og handtaka gesti staðarins. Í kjölfarið tók við uppreisn og mótmæli á götum úti þar sem hinsegin fólk barðist gegn aðförum yfirvalda og krafðist réttarbóta.

Myndin er sögð frá sjónarhorni þátttakenda – dragdrottninga, vændisstráka og lögreglumanna – blaðamanna og fyrrverandi borgarstjóra New York borgar og varpar ljósi á sögulegan viðburð sem gerðist á tímum þegar hinsegin athæfi var ólöglegt í flestum ríkjum Bandaríkjanna.

Sýningin er í boði Sendiráðs Bandaríkjanna á Íslandi.

Ókeypis aðgangur.

Bandaríkin, Hinsegin dagar, Kvikmyndir, Nýja Sjáland
Engin skoðun á “Hinsegin dagar í Bíó Paradís”

Svara færslunni

You must be logged in to post a comment.